Ath: Öll notkun á þessu efni er með öllu óheimil án vitundar og samþykkis höfundar.

MA, 19. desember 1997.

Kæru bræður og systur!

Það er mér sönn ánægja að líta eitt stundarkorn upp úr stærðfræði og eðlisfræði bókunum til að rita þetta greinarkort fyrir hið mikla rit Friðþjóf.
Nú eru hinir síðustu og verstu tímar okkar tíma. Það er samt fyrir öllu að láta ekki bugast, láta ekki í minni pokann. Þó að útlitið sé svart, bæði þegar maður lappar í skólann og heim til sín er sólin fyrir neðan það sem við köllum sjóndeildarhring, skulum við ekki láta það á okkur fá.
Jólin eru að koma. Á Jólunum er gleði og gaman og kætast þá börnin smá og kaupmenn landsins.Kætumst innst sem yst, et, drekk og ver glaðr! Því að á morgun kemur annar dagur, svo annar og annar. Allt fram streymir endalaust og tíminn flýgur áfram eins og banani í fullkomnu virðingarleysi við allt sem við gerum. Sumir segja að tíminn líði alveg eins sama hvað við gerum, við fáum engu breytt: Örlögin eru ákveðin fyrir okkur. Ég er hins vegar þeirrar trúar að á hverju augnabliki sem þýtur fram hjá okkur inni í eilífðina séum við að skappa okkur framtíð jafnt og fortíð. Lífið er dularfysti hlutur sem hægt er að lenda í, en í Guðanna bænum takið það ekki of alvarlega því það sleppur enginn lifandi frá því. Kætumst meðan kostur er, því að það er erfiðara að gera það þegar að þess er ekki kostur.
Njótum lífsins og lifum þess til hins ýtrasta. Lítum á hvern dag sem hann gæti orðið okkar síðasti þó í fullri vissu þess að það kemur annar að morgni, ekki verri en sá sem á undan er genginn. Snúið aldrei baki við hamingjunni heldur starið beint framan í hana. Látið ekki kúgun og ógnarstjórn hræða ykkur og bæla niður hið góða. Snúum bökum saman og gerum hvern dag að degi sem er þess virði að minnast.
Ég fer nú að hætta þessu bulli en vil í lokin minna ykkur á að vera góð hvert við annað, því öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Takk fyrir árið sem er að líða inn í eilífðina og gleðileg Jól og megi gleðin fylgja ykkur öllum í framtíðinni.


Tryggvi R. Jónsson


Tryggvi R. Jónsson, trigger@pjus.is
Síðustu breytingar: 15.08.02