Meinhorn Tryggva


2001 til 2002 skrifaði ég hálf-reglulegan pistil á vef sem hét Bílaspjall.is. Hér eru pistlar mínir eins og þeir birtust á þeim vef.

Meinhornið mitt 
2001-09-10 09:36:58 

Hálf-reglulegur pistill um ýmislegt tengt 'umferðarmenningu' og því sem gerist á vegum okkar.
 Komiði sæl.
Hér í þessum pistli ætla ég að reyna að koma frá mér ýmsum atriðum sem angra mig í umferðinni. Svo og ýmsu öðru tengdu 'umferðarmenningu' (ef slíkt er til á Íslandi) og umferðaröryggi.
Eins og gefur að skilja eru allar skoðanir sem koma fram í þessum pistli mínar eigin. Þær endurspegla ekki endilega skoðanir bilaspjall.is né annarra aðila.
Það getur komið fyrir að ég hafi rangt fyrir mér og er það þá í höndum ykkar lesendur góðir að leiðrétta mig með því að senda inn athugasemdir við greinar mínar. Einnig vil ég hvetja ykkur til að senda inn athugasemdir og benda á önnur sjónarmið þar sem oft eru margar hliðar á þeim málum sem ég tek fyrir hér.
Hins vegar ætla ég ekki að hætta mér út í 'trúarbragðastríð' milli bílaframleiðenda, liða í formúlunni eða neinu þess háttar. Slíkt endar ekki nema í tómu rugli.
Er það von mín að þessir pistlar mínir skapi umræðu og hvetji fólk til þess að hugsa þegar það er út í umferðinni.

Með kveðju
Tryggvi

Hegðun ökumanna á þjóðvegum landsins 
2001-09-10 21:57:58 

Hafa ökumenn gleymt því hvernig á að haga sér á þjóðvegum landsins? Er hraðinn orðinn of mikill? Eru atvinnubílstjórar eitthvað skárri en við hinir? Hafa jeppaeigendur nú loksins tapað sér? Ég keyri talsvert utan bæjar sérstaklega milli Akureyrar og Reykjavíkur. Á þessum tiltölulega mánaðarlegu ferðum mínum eftir þessari leið hef ég séð ýmislegt undarlegt.

Manni gæti dottið í hug að það renni eitthvert æði á ökumenn þegar þeir komast út úr þéttbýlinu. Jafnframt því að umferðarhraði hefur aukist til muna hefur dómgreind ökumanna hrakað.

Myndi heilbrigður einstaklingur taka fram úr 2-3 bílum á leiðinni upp blindhæð? Sennilega ekki. Þó hef ég séð þetta gerast. Mín viðbrögð eru auðvitað að stíga létt á bremsurnar til að vera sem lengst í burtu þegar slysið verður. Samt er alveg merkilegt hvað þessir einstaklingar (sem samkvæmt afar óvísindalegri könnun minni eru nær alltaf jeppaeigendur!) sleppa. Held að það sé minnst þeim að þakka! Nóg um það og að öðru...

Framúrakstur er stundum nauðsynlegur, því miður. Það er best fyrir alla aðila að framúrakstur gangi fljótt fyrir sig. Fyrsta atriði fyrir þann sem er að fara fram úr er að gefa merki um það til ökumannsins sem á að fara fram úr - stefnuljós eru staðalbúnaður í flestum bílum þó ótrúlegt virðist! Auðvitað er sjálfsagt fyrir til dæmis bílstjóra hærri ökutækja að gefa merki um að framúrakstur sé mögulegur. Vil ég sérstaklega nefna atvinnubílstjórana í þessu samhengi. Flestir þeirra eru mjög tillitssamir og gera þetta nær. Við skulum hafa hugfast að það að gefa stefnuljós til merkis um að framúrakstur sé mögulegur er ábyrgðarhlutverk. Síðan þegar framúrakstur fer fram er sjálfsögð kurteisi hjá þeim sem verið er að taka fram úr að hægja örlítið ferðina. Því hvert augnablik er hættulegt þarna á hinum helmingi vegarins, fyrir þá sem eru að æfa sig fyrir akstur í Englandi þá er það ekki æskileg iðja á þjóðvegum landsins. Þó einhver taki fram úr þér þá þarftu ekki að gefa í... það er stórhættulegt og þú átt að hætta því hið snarasta! Þú verður ekkert minni maður þó tekið sé fram úr þér.

Að lokum vil ég beina orðum mínum til jeppa-eigenda sem eiga alveg sérstakan sess í hjarta mínu. Dekkin á jeppunum ykkar eru með grófara mynstri en dekk á fólksbílum. Þar af leiðandi eiga þau auðveldara með að grípa smásteina og þeyta þeim upp í loft. Stærri dekk gera ykkur einnig auðveldara að keyra á malarvegum á meiri hraða. Þetta tvennt leiðir til svona aðstæðna: stærðarjeppi kemur á móti mér á 'ógnarhraða' eftir malarvegi með skelfilegt ryk/moldarský á eftir sér. Þó svo að við fólksbílaeigendur komumst ekki jafn hratt yfir á þessum vegum þá er óþarfi að hegna okkur fyrir með því að ausa yfir okkur grjóti! Ef það væru til samtök jeppaeigenda á Íslandi myndi ég alvarlega íhuga að senda þeim reikning fyrir sprautun á vélarhlíðinni á bílnum mínum. Reynið þið nú að sýna smá tillitssemi til okkar sem sitjum nær jörðinni! Svo ég taki mér í munn orð Sverrir Stormskers: Aldrei að sparka í liggjandi mann, hann gæti staðið upp.

Góðar stundir.
Tryggvi

Að opna bílhurð 
2001-09-18 20:33:33 

Er virkilega svona erfitt að líta út um hliðarrúðuna áður en bílhurðin er opnuð? Það getur nefnilega verið bíll við hliðina á þér, sérstaklega á þröngum bílastæðum. Hefur það einhvern tíma komið fyrir þig að koma að bílnum þínum á bílastæði með nýtt og ferskt ,,mar” á hliðinni? Þetta kom allavega fyrir mig í síðustu viku. Mér finnst tillitsleysi bílstjóra og farþega alveg óstjórnlegt. Er til of mikils mælst þegar lagt er í þröng bílastæði, eins og víða er, að athugað sé hvort bíll sé nálægt?

Sjaldan svíður þetta jafn sárt og þegar fyrsta marið kemur á nýjan eða nýlegan bíl. Verst er að bílar ná sjaldnast háum aldri áður en þessi leiðinlegu bitför bílhurða annarra bíla fara að sjást.

Í nokkra mánuði vann ég í húsnæði Flugleiða við Hótel Loftleiði. Þar lagði ég bílnum mínum á sérmerktum starfsmannastæðum. Eftir örfáar vikur var farið að stórsjá á bílnum eftir hurðaskelli annarra gesta og gangandi á þessu svæði. Liggur fólki virkilega það mikið á að það geti ekki gefið sér tíma til að líta til hliðar áður en bílhurðinni er slengt upp?

Mér finnst það lýsandi fyrir ástandið í umferðinni hjá okkur þegar meira að segja kyrrstæðir bílar eru orðnir skotmörk útúrstressaðra og yfirspenntra ökumanna sem geta ekki beðið eftir að komast út úr bílum sínum. Vil ég hvetja alla til að nota þá náðargjöf að geta metið fjarlægðir með augunum áður en þeir opna bílhurðir í þröngum bílastæðum!

Góðar stundir

Tryggvi

Götukappakstur 
2001-09-26 21:53:31 

Göturnar eru orðnar að vígvelli fyrir unga og jafnframt óreynda ökumenn sem þurfa að sýna sig fyrir sér og öðrum…. Ég var að keyra upp Reykjanesbrautina í áttina að Mjódd þar sem að gatan er þrí- ef ekki fjórbreið á kafla. Fyrir framan mig voru nokkrir bílar og þar sem ég var að fara til vinstri gaf ég stefnuljós í þá átt og kíkti til hliðar. Sennilega var það út af skyndilegri hreyfingu sem ég veitti því eftirtekt að bíllinn sem var í rassinum á mér (eins og snillingarnir segja í Formúlunni) fór skyndilega til vinstri og æddi fram úr mér með miklum látum. Fannst mér nú þetta alveg nógu heimskulegt og ætlaði þá, ennþá með stefnuljósið blikkandi til vinstri, að skipta um akrein. Kom þá ekki annar bíll í sömu andrá og gerði nákvæmlega sama hlut. Vaknaði nú hjá mér undrun og loks í þriðju tilraun tókst mér að skipta um akrein með öruggum hætti. Fór ég svo að fylgjast með þessum tveimur bílum taka slíkt og þvílíkt stórsvig upp eftir götunni að bestu skíðamenn myndu skammast sín.

Svona atvik eru því miður ekki óalgeng, þá sérstaklega hjá ungum ökumönnum sem eru á ferð seint um kvöld þegar umferð er tiltölulega lítil. Finnst mér makalaust með öllu að einhvern veginn tekst laganna vörðum algerlega að vera fjarverandi þegar svona glæfraakstur á sér stað á götum í þéttbýli. Eins og vinirnir tveir í dæminu hér á undan eiga innilega skilið að vera teknir og sviptir ökuréttindum þá sleppa þeir of oft. Sorglegt.

Í morgun var frétt á mbl.is. Fyrirsögnin var svohljóðandi: Reynsluleysi í akstri talið skýra slysið í kvartmílubrautinni. Í stuttu máli var fréttin um slys sem varð á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni um miðnætti 25. september. Tveir ungir ökumenn (17 og 18 ára) voru að láta gamminn geysa á kvartmílubrautinni. Hvað þeir voru að gera kom ekki fram en ekki er það ólíklegt að þarna hafi einhvers konar kappakstur verið í gangi. Skemmst er frá að segja að þeir keyrðu báðir út af brautinni og steyptust fram af hraunbrún nokkra tugi metra frá enda brautarinnar.

Ýmsar hugsanir komu upp í huga mér við lestur þessarar fréttar. Fyrir eitt finnst mér virðingarvert framtak hjá þessum ungu mönnum að færa kappakstur sinn af götum og þar af leiðandi stefna ekki öðrum ökumönnum í hættu með atferli sínu. Hið verra þykir mér þó að annar ökumaðurinn var með tvennt með sér í bílnum. Vil ég votta aðstandendum þeirra sem slösuðust við þennan hörmulega atburð samúð mína og vona ég innilega að bati hinna slösuðu verði skjótur og góður.

Hvað svo sem það er sem rekur unga - ökumenn þó aðallega karlkyns - til glæfraaksturs er mér að miklu hulin ráðgáta. Hins vegar máli mínu til stuðnings vil ég vitna í kenningu James-Lange um tilfinningar (James-Lange theory of emotions sjá t.d. James, 1890). Þessi kenning segir að lífeðlisfræðilegt ástand (til dæmis aukinn hjartsláttur) sé túlkaður yfir í tilfinningaástand. Tökum dæmi. Ung stúlka situr við hliðina á ökumanni (ámóta ungum) í bíl á mikilli ferð í stórsvigi eftir Miklubrautinni. Hjartsláttur þessarar ungu stúlku er hærri en venjulegt þykir og þetta ástand túlkar hún sem hrifningu (attraction) í garð ökumannsins. Útsmogið ekki satt? Það sem í rauninni veldur auknum hjartslætti er hræðsla. Ýmsar athuganir hafa hins vegar sýnt fram á galla þessarar kenningar. Þó vil ég halda því fram að hún standi fyrir sínu í ofangreindu dæmi. Annað sem er þekkt þrástef í uppeldismálum eru áhrif fjölmiðla. Ég fór í bíó um daginn. Myndin sem varð fyrir valinu var The Fast and The Furious. Þar er fjallað um þann lífsstíl og glæsibrag sem tengist ólöglegum götukappakstri í stórborg í Bandaríkjunum. Þetta ásamt öðru gæti verið ástæða fyrir aukinni tíðni glæfraaksturs á götum í þéttbýli.

Það er mín skoðun að bjóða þurfi upp á þar til gerða og jafnframt örugga leið fyrir unga sem eldri ökumenn til að fá útrás fyrir glæfraakstur og jafnfram öðlast reynslu á akstri við ýmsar aðstæður. Til eru skólar í Bandaríkjunum sem bjóða upp á námskeið í akstri. Þar er meðal annars farið í hvernig á að bera sig að á þjóðvegum, við erfiðar aðstæður og fleira. Einn sá helsti er Bob Bondurant School of High Performance Driving. Mér finnst að aðilar sem tengjast umferðarmálum á Íslandi eigi að sameinast um að koma upp aðstöðu til kennslu og æfinga við ýmsar aðstæður. Nú vil ég ekki vera að gera lítið úr ökukennarastéttinni og síst af öllu því ágæta fyrirbæri sem er þó tiltölulega nýtilkomið sem heitir æfingaakstur. Þetta er allt gott og gilt en meira þarf til ef duga skal og mun ég fjalla meira um það síðar.

Góðar stundir
Tryggvi

Að verða betri ökumaður 
2001-10-01 11:07:03

Er það tilviljun að rúmlega 70% ökumanna telja sig yfir meðallagi góða ökumenn? Finnst engum þetta undarleg tölfræði nema mér? Hvað er það að vera góður ökumaður? Er það tjónlaus ferill? Hæfileikinn til að keyra hratt án þess að nást af lögreglunni? Sýna tillitssemi gagnvart öðrum vegfarendum? Skoðanakannanir hafa sýnt að ökumenn telji sjálfan sig yfir meðallagi góða ökumenn í 70% tilfella. Ef við gefum okkur að þessi eiginleiki eins og flestir aðrir eiginlegar mannlegrar hegðunar dreifist samkvæmt normal-dreifingu þá er þetta rökfræðilega ómögulegt.

En hvað þarf til að geta talist góður ökumaður? Við fyrstu sýn virðist það vera mikill kostur að forðast umferðaróhöpp. Crister Gustafsson rannsakar umferðaróhöpp fyrir Volvo. Í starfinu sínu hefur hann skoðað mikinn fjölda umferðaróhappa. Hann hefur þá sérstöðu sem margir aðrir vildu gjarnan hafa: hann hefur aldrei lent í umferðaróhappi. Hann orðar þetta svona: ,,Maybe it’s because I see what causes accidents that I avoid putting myself in situations where they happen” ( How to avoid Accidents). Sem sagt með því að forðast ákveðna áhættuþætti er hægt að draga úr líkunum á því að lenda í óhappi.

Með því að sýna varkárni og vera hugsandi í umferðinni er hægt að komast hjá því að lenda í óhappi. Samt er ekki nóg að standa bara eingöngu klár á sínu. Með auknum umferðarþunga og fleiri bílum í umferð aukast líkurnar á umferðaróhöppum óumflýjanlega. Aðrir hlutir hafa líka áhrif á slysatíðni svo sem: þreyta ökumanna, truflanir við akstur, háskaakstur og svo mætti lengi telja. Það er því ekki nóg að hugsa bara um sjálfan sig heldur þarf maður að vera á varðbergi gegn öllum hinum líka. Ökumenn sem eru þreyttir, ölvaðir, utan við sig og svo framvegis eru hættulegir vegna þess að aðrir ökumenn geta ekki gert ráð fyrir því að þeir hagi sér skynsamlega. Þegar við fylgjumst með umhverfi okkar til að vera með á nótunum (environmental awareness) neyðumst við til að einfalda flókna hluti og nota leiðsagnarreglur (heuristics) til að koma þeim upplýsingum sem við þurfum til heilans. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að skammtímaminni rúmar ekki meira en sjö (plús eða mínus tvö) atriði í einu. Það er mjög auðvelt að yfirfylla það í akstri í mikilli umferð.

Því getur verið nauðsynlegt að líta svo á sem aðrir ökumenn séu rökrænir og fylgi sömu grundvallarreglum og við gerum við akstur. Það er þegar þessi ályktun reynist röng sem mörg slys verða. Sjaldnast er hægt að kenna öðru um en ökumönnunum sjálfum þegar óhöpp verða. Athygli brestur, aksturslag var ekki eftir aðstæðum og þess háttar mistök eru talsvert algengari en til að mynda bilaðar bremsur og stýri sem hætta að virka. Það er því aðallega í okkar höndum sem sitjum á bak við stýrið að lækka slysatíðni í umferðinni. Það gerir það enginn annar fyrir okkur. Tryggingafélögin eru fljót að hækka iðngjöldin þegar slysatíðni hækkar en virðast vera lengur að lækka þau þegar tíðni slysa lækkar aftur. Þá er þetta bara talin skammtímalækkun. Gerum okkar besta til að þessi lækkun verði til langframa með því að vera hugsandi og með augun opin þegar við keyrum.

Góðar stundir
Tryggvi


Ofsaakstur með lögregluna á hælunum 
2001-10-22 19:54:43 

Það er orðið daglegt brauð hjá lögreglu að standa í eltingaleik við ökumenn sem þeysa um göturnar. Ef maður vissi ekki betur myndi maður halda að fréttirnar væru frá stórborg í Bandaríkjunum en ekki Reykjavík. Síðan aðfaranótt 22. október þurfti lögreglan að keyra á bifreið innbrotsþjófa eftir eltingaleik á 130km/klst um miðbæ Reykjavíkur.

Einföld leit í fréttum mbl.is sýndi að þetta er ekkert einsdæmi. Tökum nokkur dæmi:

Hvað eiga þessar sögur sameiginlegt? Í stuttu máli virðist það vera: mikill hraði, ungir karlkyns ökumenn. Ég hef sjálfur verið á ferðinni sérstaklega síðla kvölds og orðið var við ofsaakstur ökumanna. Bæði gáleysislegan akstur og alltof hraðan akstur og svívirðilega framkomu gagnvart öðrum ökumönnum. Það sem kemur mér í rauninni á óvart er að lögreglan hafi ekki hendur í hári fleiri ökumanna en raun ber vitni. Því miður sleppa þessir einstaklingar alltof oft.

Ég sá gott framtak hjá Landflutningum Samskip um daginn. Aftan á flutningabíl frá þeim var orðsending: “Ef þú sérð eitthvað athugavert við aksturslag þessarar bifreiðar hafðu samband” og síðan var 800-númer fyrir neðan. Þetta finnst mér til fyrirmyndar og ættu fleiri fyrirtæki að taka þetta upp.

Landssíminn tók í notkun ökusírita í um 20 af bílum sínum. Samkvæmt því sem kemur fram í fréttatilkynningu frá 2. október. Þeir vilja með þessu stuðla að umferðaröryggi, lækka rekstrarkostnað bifreiðanna og bæta ímynd fyrirtækisins. Gott framtak!

Mér finnst að nú þegar að fer að koma hálka, myrkrið eykst og sól er lágt á lofti eigi ökumenn að gíra niður, lækka umferðarhraðann og fara að hugsa aðeins um það sem þeir gera. Því það er augljóst að þeir hafa ekki verið að því síðustu mánuðina!

Njótið öryggis í umferðinni…
Tryggvi

Jeppar dauðans 
2001-10-24 12:31:24 

Ég heyrði um daginn þá yfirlýsingu að jeppar væru öruggari en fólksbílar. Rökin? Jú þegar að jeppi og fólksbíll lenda í árekstri sleppur fólkið í jeppanum frekar. Á því að banna fólksbíla? … Dæmin sýni að fólk í fólksbílum sé líklegra til að verða fyrir alvarlegum áverkum í árekstrum við jeppa. IIHS (Insurance Institute for Highway Safety) sendi frá þessar þessar óhuggulegu myndir í fréttatilkynningu:


Sjá fleiri myndir hér.

Ökumaður þessa bíls þrítug kona lést af alvarlegum höfuðáverkum eftir árekstur við Blazer jeppa.

Til allrar lukku eru bílaframleiðendur að bregðast við þessu ástandi með því að hanna öryggisbúnað sem eiga að verja efri hluta og höfuð farþega. Án þess þó að nokkrar reglur séu um slíkan búnað hafa t.d. BMW og Volvo sett þennan búnað í bíla sína. IIHS gaf frá sér fréttatilkynningu um prófanir á slíkum búnaði.

En hvað með íslensku ofur-jeppana á 44” dekkjum? Það er augljóst að stuðarar virka ekki þegar slíkt ökutæki lendir í árekstri við fólksbíl. Það kom mér hins vegar á óvart hve algengt er að lesa fréttir af óhöppum þar sem annar aðilinn er jeppi. Getur ekki verið að þegar ökumaður jeppa er svona hátt uppi missi hann tengsl við raunveruleikann? Fái falska öryggiskennd og haldi að hann ráði við aðstæður sem í rauninni hann gerir ekki. Eitt atriði sem fáir huga er virkni hemla þegar búið er að breyta jeppa. Að sjá jeppa á 44” dekkjum á 100-120 kílómetra hraða á klukkustund er sannarlega ógnvænleg upplifun þegar haft er í huga að hemlabúnaður hans er ekki hannaður til að stöðva þessi stóru dekk. Það er nefnilega ekki bara nóg að hafa vélarafl til að komast af stað. Það þurfa líka að vera til staðar úrræði til að stoppa aftur með öruggum hætti.

Því vil ég hvetja jeppaökumenn að hafa þetta í hug og einnig þá ábyrgð sem á þeim hvílir gagnvart þeim okkar sem sitjum nær jörðinni. Ef til áreksturs kemur er jeppinn talsvert líklegri til að valda alvarlegum áverkum sem gætu leitt til dauða en annars fólksbíll!

Góðar stundir
Tryggvi


Haustið er komið 
2001-10-30 09:20:32 

Fyrsti vetrardagur var um síðustu helgi og því ætti öllum að vera
ljóst að haustið sé í nánd... Svo virðist hins vegar ekki vera í
umferðinni.

Þegar ég kíki á fréttasíður á Netinu, Textavarpið eða opna dagblað
sýnist mér sem mjög slæmir hlutir séu að gerast. Tökum dæmi af mbl.is:

Nítján 27. október og í dag (30. október) eru þeir 21. Vil ég vota
aðstandendum þeirra sem létust í Kollafirðinum innilega samúð mína.
Þetta hafa sannarlega verið slæmir dagar í umferðinni.  Megnið af
ofangreindum óhöppum má rekja til hálku eða annarra hluta  sem
tengjast haustinu.

Það er því tímabært fyrir okkur ökumenn að draga úr hraðanum og komast
í betra 'jarðsamband'. Mjög gott er líka að gera sér grein fyrir
því gripi (eða gripleysi) sem er með því að prófa að hemla snögglega
á fáförnum vegum. Þó ber að nefna að við þær aðstæður (prófun
hemlabúnaðar) er sá sem er fyrir framan í órétti ef keyrt er aftan
hann. Farið því að þessu eins og öllu öðru í umferðinni þessa dagana
með gát.

Góðar stundir
Tryggvi


Vetrarakstur á Íslandi
2001-11-02 09:12:02 

Búum okkur vel fyrir vetraraksturinn. Að ýmsu ber að hyggja bæði hvað
varðar útbúnað bílsins og ökumannsins. Kíkjum á nokkur atriði... 

Að mörgu er að hyggja í vetrarumferðinni og hér verða bara örfá
atriði talin upp. 

Ökutækið

Ökutæki eru misvel undirbúin fyrir veturinn. Meðal þess sem þarf að
athuga er: 

Ökumaðurinn

Ýmsir atriði geta haft áhrif á akstur annað en ökutækið sjálft.
Þar spilar ökumaðurinn stórt hlutverk og því ætti ekki síður að búa
hann undir veturinn en ökutækið.

Ég vona að þessir punktar geti komið að gagni og að vetrarumferðin
taki ekki meiri toll af okkur en nauðsynlegt er.

Góðar stundir
Tryggvi

Heimidir

http://www.safeguard.ca/english/publications/driving-e.html 
http://www.motorbar.co.uk/winterdrive.htm 
http://www.swedishengineering.com/winter~2.htm

Varhugaverður akstur á bílaplönum! 
2001-11-21 20:09:26 

Núna þegar jörð er lítillega hvít þá þarf að vara sig á því að aðstæður á aðalgötum annars vegar og bílaplönum til dæmis við verslanir eru mjög ólíkar. 

Ég var í mestu rólegheitum að bakka út úr stæði við verslun nýverið og ætlaði að keyra í burtu þegar að hvítur smábíll keyrir í veg fyrir mig. Við stýrið situr ung, ljóshærð kona (og svo er fólk að tala um staðalmyndir!) sem var greinilega að flýta sér með allar vinkonurnar aftur í að komast í búðina. Við þetta bremsaði ég auðvitað til að keyra ekki á aumingja stúlkuna sem var alltof mikið að flýta sér. Varð mér þá auðvitað það ljóst að það var talsvert hált á þessu bílastæði, eins og sennilega mörgum öðrum þessa dagana. Til allrar lukku þurfti þessi unga kona ekki að reyna á hemlana til dæmis við þær aðstæður að barn labbaði fyrir bílinn hjá henni.

Vinsamlegast ungar, ljóshærðar konur á hvítum bílum (sem og allir aðrir ökumenn) hugsið aðeins um viðnámsstuðul yfirborðs jarðar þar sem þið eruð að aka. Það kemur alltof mörgum á óvart hve miklu hann skiptir.

Farið varlega
Tryggvi


Óendanlegt tillitsleysi! 
2001-12-03 20:38:09 

Hvað er að fólki? Nú þegar allt er á kafi í snjó og maður á að þurfa að skíða á milli bíla líka?!?!? Mér er alveg ofboðið. Tillitsleysið hjá ökumönnum hefur loksins gengið fram af mér. Þó svo að það sé snjór gefur það ekki afsökun fyrir því að vera tillitslaus. Tökum sem dæmi. Ef einhver þarf að komast fram hjá (þú ert til dæmis stopp í vegarkantinum að bíða eftir einhverjum) þá er sjálfsögð kurteisi að reyna að víkja eins mikið og kostur er. Þó svo að það sé smá hvítt duft (ekki miltisbrandur) á jörðinni þá þarf samt að virða almennar kurteisisvenjur í umferðinni.

Annað sem mig langar til að nefna núna þegar færðin er ekki svo góð. Það er sjálfsagt að hjálpa samborgurum sínum þegar þeir eiga í vandræðum. Og þetta á einnig við um þá sem eiga ekki jeppa. Það er hægt að bjarga miklu bara með því að ýta pínu. Þetta er líka ágætis líkamsrækt!

Svona í lokin finnst mér alveg ótrúlegt að sjá þetta lið sem nennir ekki að skafa almennilega af bílunum sínum. Skamm skamm skamm!!! Það er þó möguleiki að það fari smá snjór af bílnum þegar þið lendið í árekstri við eitthvað sem þið sáuð ekki.

Hafið það gott í snjónum!
Tryggvi


Bíll dreginn burt af bílastæði 
2002-01-27 00:04:45 

Það var eitt kvöldið í desember að ég tók eftir því að bíll kærustu minnar var horfinn af bílastæðinu í götunni hjá okkur. Kom þetta okkur auðvitað mikið á óvart. Við gerðum auðvitað það sem okkur fannst eðlilegast... fórum til lögreglunnar... Eftir skýrslutöku hjá varðstjóra fórum við aftur heim. Fannst lögreglunni þetta undarlegt þar sem þetta var inn í miðju íbúðahverfi og hefði eiginlega bara geta gert um hábjartan dag. Svo leið helgin og ekkert gerðist. Okkur var bent á að hringja í Vöku sem við gerðum, hve ólíklegt sem okkur fannst að bíllinn hefði verið dreginn í burt.

Í ljós kom að bíllinn var hjá þeim. Íbúarnir í húsunum í kring höfðu skrifað undir fax og sent til Vöku þar sem þeim var fyrirskipað að fjarlægja þennan bíl sem hafði verið öllum til 'ama'. Þess skal þó getið að bíllinn var búinn að standa þarna í viku, bæði vegna veikinda og þess að færi hafði verið mjög leiðinlegt. Fórum við auðvitað rauðglóandi niður til Vöku og þurftum að greiða rúmar 6.000kr til að endurheimta bílinn og fengum í leiðinni ágætan skammt af fordómum gagnvart fólki utan af landi. Það vill nefnilega svo til að bæði ég, kærastan mín og þessi ágæti bíll er með lögheimili á Akureyri. Þar af leiðandi taldi starfsmaður Vöku okkur eiga engan rétt á því að leggja hvorki eins né neins staðar í henni blessuðu Reykjavík.

Ekki var það þó það eitt sem er athugavert við þessa aðgerð. Bílastæðið sem bíllinn var á er ekki merkt sem einkabílastæði og engar aðvaranir um að bílar yrði dregnir í burtu ef þeim væri lagt þarna. Ekki var reynt að hafa samband við eiganda bílsins áður en hann var fjarlægður með valdi (þurfti að brjótast inn í hann til að taka úr handbremsu og gír).

Enn þann dag í dag er þetta okkur mikil ráðgáta hvernig hægt er að fjarlægja eigur annarra án þess að tala við einn eða neinn. Það er algert lágmark að lögreglu sé tilkynnt um svona hluti. Auk þess að kosta fyrirhöfn, peninga og tíma, bæði hjá okkur og starfsmönnum Vöku og auðvitað íbúa húsanna við að safna undirskriftum til að fá bílinn fjarlægðan, var búið að sóa tíma opinberra starfsmanna í skýrslutökum og eftirgrennslan eftir bíl sem talið var stolið.

Þegar fjarlægja á bíl er eðlilegast að hringja í Skráningastofuna (eða Lögreglu) og fá uppgefið hver eigandi bílsins er, sem er tiltölulega ódýrt og fljótlegt. Hringja í viðkomandi og biðja hann, fallega eða ekki, um að fjarlægja bílinn sinn þar sem hann sé til ama og leiðinda...


Góðar stundir
Tryggvi


Aksturslag sendiferðabíla 
2002-01-31 08:31:51 

Ég var á ferðinni á milli Akureyrar og Dalvíkur rétt fyrir Jólin í fyrra. Það var hálka og auðvitað hagaði maður akstri eftir aðstæðum. Kemur þá aftan að mér sendiferðabíll.... Liggur honum greinilega mikið á þar sem hann fer, í lélegu skyggni og við varhugaverðar aðstæður, alveg út í kant þegar hann tekur fram úr mér. Spýtir yfir mig heilmiklu af grjóti úr vegöxlinni og spænir fram úr mér. Viðurkenni ég að mér fannst þetta alger óþarfi og veiti honum eftirför inn á Dalvík. Stoppar hann þar fyrir framan fyrirtæki (ónefnt) og legg ég upp að hliðinni á honum. Fer ég út úr bílnum og skoða húddið hjá mér og merkilegt nokk þá sé ég skemmdir eftir grjótkast sem var ekki á bílnum hjá mér daginn áður þegar ég hafði komið frá Reykjavík. Og já ef einhver spyr þá hef ég það fyrir sið eftir langar keyrslur utan bæjar að athuga lakkskemmdir... sjúkt en svona er maður bara.

Rölti ég til ökumannsins sem situr sem fastast í sendiferðabílnum. Tek ég tal við hann og spyr hann hvað svona aksturslag eigi að þýða? Hann hafi ekki sýnt nægjanlega tillitssemi við framúrakstur og auk þess akið langt yfir leyfilegum hámarkshraða við aðstæður sem alls ekki gáfu tilefni til slíks aksturs. Var hann hinn brattasti og sagði að hann kæmi ekki einu sinni bílnum í þann hraða sem ég sagði að hann hafi verið á. Hef ég þó staðfestingu fyrir því að hraðamælirinn í bílnum mínum lýgur ekki.

Finnst mér fyrir neðan allar hellur að atvinnubílstjórar skuli sýna slíka vanvirðingu og gáleysi í umgengni um þær eigur vinnuveitenda sinna sem þeim er treyst fyrir. Auk þess að stefna lífi sínu, lífi annarra og eigum annarra í stórhættu með vítaverðu gáleysi. Þetta er því miður ekki eins dæmi og sér maður merkta bíla frá ýmsum fyrirtækjum gera ýmislegt í umferðinni sem er ekki hægt að réttlæta með neinum hætti. Finnst mér þó framtak eins ákveðins flutningafyrirtækis til fyrirmyndar. Aftan á bílum þeirra er merking: ,,Ef þú hefur eitthvað við aksturslag þessa bíls að athuga hringdu þá í 800-XXXX'. Finnst mér að fleiri eigi að fara þessa leið eða setja ökurita í bíla sína eins og Síminn er að gera tilraunir með.

Munið það að þegar þið keyrið bíla sem vinnuveitendur ykkar eiga eru þið þó jafn ábyrg fyrir því sem gerist. Þó svo að eignatjónið sé ekki ykkar eigið þá situr það jafn illa á samviskunni að hafa til dæmis ekið niður mann á bíl frá vinnustað eins og sínum eigin bíl.


Góðar stundir
Tryggvi

Slasaðist í árekstri við jeppa... 
2002-02-06 12:05:35 

Þetta var nýleg fyrirsögn á fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is). Það getur verið að aukin jeppaeign landsmanna sé að valda þessu en mér finnst ég sjá oftar í fréttum að jeppa og fólksbíll lentu í árekstri... ökumaður jeppans slapp en ökumaður og farþegar í fólksbílnum eru þungt haldnir... Það er ósköp auðvelt að sjá af hverju farþegar fólksbíls séu í meiri hættu en þeir sem eru í jeppum. Öryggisbúrið sem er utan um farþegana í fólksbílnum er einfaldlega ekki á réttum stað til að taka við höggi frá jeppa sem er e.t.v. búið að hækka upp. Fáir framleiðendur hafa reynt að gera eitthvað í þessu. Til allrar lukku eru þó undantekningar. BMW X5 sportjeppinn (2001) er til dæmis með hliðarárekstrarvörn (svipað og IC kerfi Volvo frá 1997) sem hefur verið prófuð af IIHS í hliðarárekstri á súlu. Dró þessi útbúnaður stórlega úr líkum á alvarlegum höfuðáverkum.

Nú í janúar sýndu Volvo nýjan sportjeppa, XC90, á bílasýningunni í Detroit. Auk þess að vera með mjög rausnarlegum öryggisbúnaði fyrir þá sem eru inn í bílnum (WHIPS, SIPS, IC o.fl.) þá er nýung hjá Volvo að setja bita sem er neðar en framstuðarinn svo að sá biti rekist í öryggisbúr hins bílsins ef til áreksturs kemur.

Væri óskandi að fleiri framleiðendur væru virkir í því að tryggja öryggi ekki bara sinna viðskiptavina heldur annarra vegfarenda líka. Meðan svo er ekki þá er það undir okkur ökumönnunum komið að tryggja ekki bara líf og heilsu okkar heldur annarra. Gleymum því ekki að þó við séum á jeppa þá getur alltaf komið steypubíll og keyrt á okkur... Það eru alltaf stærri fiskar í sjónum en við!

Akið varlega
Tryggvi

Það er líka pláss fyrir aftan... 
2002-03-27 08:32:32 

Hafið þið einhvern tíma lent í því að bíll rembist og rembist við það að troða sér í eins metra langt bil fyrir framan ykkur meðan það er sex metra bil fyrir aftan ? Ég var að keyra í gær þar sem tvíbreið gata varð einföld fyrir framan Mjóddina á nýju brúnni yfir Reykjanesbrautina. Snillingur á rauðri Mitsubishi Carismu ætlar að flýta fyrir sér með að troðast fram fyrir röðina og varð ég fyrir valinu til að hleypa honum inn á. Þó það væri bara tæp bíllengd milli mín og bílsins fyrir framan ætlaði þessi ágæti herramaður að komast þarna á milli. Eins og við vitum sem höfum lært smá eðlisfræði geta tveir hlutir ekki verið á sama stað á sama tíma án þess að eitthvað gefi sig. Þessi maður vissi þetta greinilega ekki.

Það var auðvitað hægt að bjarga þessu með því að gefa manninum smá pláss til að komast að. Til þess að gera þetta leit ég í baksýnisspegilinn og bremsaði örlítið. Mér til mikillar furðu var alveg miklu meira en nóg pláss fyrir aftan mig og hefði verið miklu betra fyrir þennan ökumann að fara fyrir aftan mig.

Því spyr ég: Er svo hræðilegt að vera fyrir aftan einhvern? Það mætti halda að það væri afar niðrandi, hættulegt og hreinlega ekki mönnum bjóðandi að þurfa að vera fyrir aftan annan bíl. Skoðum næst þegar við ætlum að troða okkur hvort það sé ekki hægt að komast af með að vera einum bíl aftar í röðinni... það munar ekki öllu.

Góðar stundir
Tryggvi

Beljurnar eru sloppnar út... 
2002-04-09 19:34:50 

Þá eru beljurnar sloppnar út og byrjar að skvetta rassinum til. Þeir sem hafa verið í umferðinni síðustu dagana vita um hvað ég er að tala... Það er hreinlega búið að vera ófremdarástand á götum Reykjavíkur undanfarna daga. Ökumenn (og ökukonur) virðast þurfa að fá útrás fyrir vetrarbölið og eru nú að gefa í, stórsviga og láta öllum illum látum. Það er kannski rétti tíminn til að benda á það núna að vetrardekk (sem flestir eru á ennþá) gefa í flestum tilfellum verra grip á auðu malbiki heldur en sumardekk. Sérstaklega á þetta við um nagladekk. Menn ættu því að passa sig að taka alfarið upp sumartaktana strax.
Þetta sést líka á slysunum. Nú í dag varð alvarlegt slys í Kömbunum (sjá frétt mbl.is). Er ekki hægt að segja að þetta líti annað en illa út og vonandi að viðkomandi ökumaður nái heilsu aftur.

Förum því varlega í vorærslaganginum.
Tryggvi

Ótrúlegur fíflagangur! 
2002-04-21 19:29:04 

Ég var í sunnudagsumferðinni áðan rétt um sjö að koma eftir tvíbreiðri götu og áttu eftir svona 1,5 bíllengd í að gatan yrði einbreið... ... ákveður þá ekki jeppi af amerískri gerð sem var búinn að vera í rassinum á mér í smástund að nú væri tækifæri lífsins til að taka fram úr og neglir greinilega V8 vélina í botn og bíllinn rís upp á afturendann hjá honum og hendir sér upp að hliðinni á mér og ætlar fram fyrir. Ég sé ekki marga aðra kosti en að nauðhemla og gefa þessum ágæta manni (eða konu) tóninn með flautunni.

Ég vil bara spyrja.. hvað er AÐ? Þessir rétt um 4 metrar sem hann græddu á því að vera fyrir framan mig í bílalestinni (sem hélt áfram fyrir framan mig) hafa ekki skipt öllu máli. Get ekki ímyndað mér að sunnudagsmaturinn kólni svona hratt né að fréttirnar séu svona merkilegar!

Minnir mig á annað sem gerðist í síðustu viku. Ég var að keyra eftir götu þar tvær hliðargötur komu að henni, báðar á biðskyldu. Bíll sem var á hliðargötunni og á biðskyldu mér á hægri hönd ætlar að taka vinstri beygju. Hann sér að hann eigi séns á að komast yfir áður en ég kem að honum og fer hann því af stað út á götuna. Athyglin hjá þessum ágæta manni á franska fjölnotabílnum sínum var þó ekki alveg í lagi. Því á móti honum út úr hinni hliðargötunni kemur líka bíll sem ætlar inn á götunni í sömu átt. Verður þessi eigandi fransks fjölnotabíls því að stoppa út á miðri götunni þar sem ég nálgaðist óðfluga. Aftur þurfti ég að slíta að óþörfu flautunni og bremsunum í bílnum hjá mér.

Þegar ég fer að líta yfir þessi atvik og þó alltof mörgu hliðstæðu sem ég upplifi í umferðinni í Reykjavík er ég ekkert hissa á því að bremsurnar í bílnum hjá mér slitni hratt (að mér finnst). Meðan að þvílíkir ruddar og dónar sem þessir ganga lausir í umferðinni þá munu bremsuframleiðendur græða á tá og fingri!

Gangi ykkur vel í umferðinni
Tryggvi


Tryggvi R. Jónsson, trigger@pjus.is
Síðustu breytingar: 25.01.03