Heimasíða Tryggva
Sálfræði

Ég stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands frá 1998 til 2002. Það kom öllum á óvart, meira að segja mér, þar sem ég kem úr frekar hörðu raungreinaumhverfi á eðlisfræðibraut MA. Slíkur hugsanaháttur virtist hins vegar henta náminu ágætlega. Til dæmis lífeðlisleg sálfræði sem er mjög tengd líffræði og líffæra- og lífeðlisfræði (LOL), tilraunasálfræði sem sækir mikið til eðlisfræðinnar og skynjun sem aftur er mjög tengd líffræði og LOL-inu.

Þegar ég hóf nám hélt ég að ég væri fylgjandi hugfræði (cognitive psychology). Það kom hins vegar snarlega í ljós þegar ég fór að læra hugfræði að það væri nú meira bullið. Eftir því sem maður kynnti sér málið betur og tók fög eins og Greiningu og mótun hegðunar (greimó), Sögu sálfræðinnar og Persónuleika sálfræði (perrinn) þá kom í ljós að það var atferlishyggja (behaviorism) sem átti betur við mig. Þar ber sérstaklega að nefna hinn mikla snilling B.F. Skinner.

Saga sálfræðinnar er fyrir margt merkileg þó hún sé stutt. Ágætis yfirlit yfir hana er að finna á þessari síðu hjá háskólanum í Sippensburg. Einnig er hægt að nálgast klassísk rit í sálfræði á síðu sem háskólinn í Toronto, Kanada er með. Þeir sem vilja kynna sér söguna nánar geta kíkt á bók Thomas Hardy Leahey (1996): A history of psychology: main currents in psychological thought. (ISBN: 0-13-533605-8) sem er gefin út af Prentice Hall og kennd í námskeiðinu Saga sálfræðinnar í Háskóla Íslands. Hún fæst hjá Amazon.

En af hverju fer einhver sem kann á tölvur að læra sálfræði? Það kann að virðast óskiljanlegt í fyrstu en við nánari athugun er það ekki svo. Fjölmargir snertifletir eru á milli sálfræði og tölvutækni. Sem dæmi má nefna gervigreind, tölvulíkingar i hugfræði (ojj!), viðmótshönnun á forritum, áhrif nýrra samskiptahátta á fólk sem félagsverur og margar hagnýtingar tölvutækni í daglegu lífi. Það gleymist nefnilega mjög oft að það er fólk sem situr uppi með að nota alla tæknina sem er verið að búa til. Ágætis yfirlit yfir það sem verið er að gera í viðmótshönnun sem tengist sálfræði er að finna á vefnum eftir prófessor Marilyn Maintei Tremaine. Nefna má fleiri merkar persónur í samskiptum tölvunarfræði og sálfræði eins og til dæmis Sherry Turkle hjá MIT. Turkle hefur skrifað bækur eins og Life on the Screen.

Mín nálgun á sálfræði er sú að það eigi að nota kenningar fræðigreinarinnar til að gera heiminn betri fyrir heilbrigt fólk. Bæta lífsgæði og auðvelda fólki að sinna þeim skyldum sem til þeirra er ætlast. Aðrir hafa áhuga á geðrænum röskunum (psychological disorders) en slíkt heillar mig engan veginn.

Ég lauk BA prófi í sálfræði í febrúar 2002 og lokaverkefni vann ég með Guðrúnu Jónsdóttur. Viðfangsefni okkar var gerð mælitækis til að meta yfirfærslu þjálfunar (transfer of training). Með því mælitæki á að vera hægt að meta hvort þjálfun og endurmenntun sé líkleg til að koma að gagni í starfi. Meðal þeirra valnámskeiða sem ég tók voru: vinnusálfræði, stjórnun, vinnuskipulag og vinnumenning, réttarsálfræði og fortölur, viðhorf og hegðun.

Á hvar.is er að finna mörg áhugaverð gagnasöfn og þar eru sérstaklega áhugaverð með tillit til sálfræði söfnin: ProQuest, ERIC og ScienceDirect.

Ágætar krækjur sem tengjast sálfræði:Tryggvi R. Jónsson, trigger@pjus.is
Síðustu breytingar: 09.08.2004
Aldur og ...
Myndasafn
Um þessa síðu
Kidlink
Sálfræði
Vefdagbók

Vefir
www.42.is
www.pjus.is
www.eldhus.is
www.ma98.net